Færsluflokkur: Bloggar
Þriðjudagur, 8. maí 2007
Kosningarnar í nánd
Heil og sæl
Samkvæmt nýjustu könnun Gallúps eru Framsóknarmenn í gríðarlegri sókn. Fylgisaukning upp á 29% milli kannana. Ég kalla það nú bara ágætt En ég vil bara benda fólki á skemmtilegt lag með góðum boðskap, vinsamlegast smella hér!
En hvað sem því líður og kosningar í nánd, vil ég benda óákveðnum á frábæran kost til að kanna hvar það liggur í stjórnmálunum, því inn á http://xhvad.bifrost.is/ er hægt að kanna við hvaða flokk skoðanir manns passa best. Ég tók þetta stutta próf og mældist 70% Framsóknarmaður og 69,75% Sjálfstæðismaður. Þannig að ég er tæplega 140% stjórnarmaður . Kemur varla á óvart.
Halldór litli er tveggja mánaða í dag. Hann er að verða voða stór og sterkur strákur. Ég myndi bara halda að hann væri draumakrakki, þar sem hann á það til að sofa um 9 klukkutíma samfellt yfir nóttina og aldrei minna en 6. Þetta er allt annað líf heldur en fyrstu dagana, þegar hann var sígrátandi vegna svengdar .
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Fimmtudagur, 26. apríl 2007
Í fréttum er þetta helzt!
Það er ekki laust við annríki þessa dagana. Prófin nálgast óðfluga, en þau byrja í næstu viku og enda í næstu viku. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að ég fer bara í tvö próf í á þessari önn. En það er líka alveg nóg. Þessa stundina er ég að leggja lokahönd á uppsöfnuð heimaverkefni annarinnar, en það voru orðnir ágætis haugar hér fyrir nokkru.
En það sem ber hæst þessa dagana að fjölskyldulífið gengur vel og er það allra skemmtilegasta. Halldór litli er farinn að hjala og brosa mikið meira og svo er hann nýbyrjaður að hlæja. Honum finnst ennþá leiðinlegast af öllu að láta skipta á sér og hvað þá þegar hann þarf að fara í bað. En sem betur fer er hann farinn að sofa miklu betur á nóttunni og það munar öllu.
En þeir virðast bara vera að spá sumarblíðu um komandi helgi, loksins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 11:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 9. mars 2007
Krílið komið
Bloggar | Breytt 3.5.2007 kl. 21:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Laugardagur, 3. mars 2007
Merkilegt!
Komið þið sæl
Ég veit ekki hvort einhver hefur verið að pæla í fréttunum að undanförnu. Ég hef verið að gera það, vegna þess að ég er almennt forvitinn og svo er ég ekki enn búinn að gera upp við mig hvað ég á að kjósa í vor. En eitt er svolítið merkilegt. Ég heyrði viðtal við varaformann Vinstri grænna þar sem hún var að lýsa hugmyndum flokksmanna um kynjakvóta. Hugmyndin byggist á því að fyrirtæki, hvort sem er á vegum hins opinbera eða á almenna markaðnum verði að hafa jafnt kynjahlutfall innan nokkurra ára. Eitthvað blaðraði hún um aðlögunartíma og fleira. Fyrir mína parta finnst mér þetta út í hött. Í fyrsta lagi ganga ekki bæði kynin í öll störf. T.d. nefni ég vinnuna sem ég var í síðastliðið sumar, jarðboranir. Þau fyrirtæki sem standa í þannig starfsemi gætu lent illa í því. Í öðru lagi er hætta á því að fyrirtækin missi af hæfari starfsmönnum vegna áætlaðra laga.
Ja eitt er á hreinu, ef þetta "happreykjandihippalistapakk" kemst í stjórn sé ég ekki mörg atvinnutækifæri í framtíðinni fyrir mig. Þar sem ég er svo óheppinn að vera af vitlausu kyni og svo ætla þeir að gera "stóriðjustopp" með tilheyrandi stoppi á jarðfræðilegum rannsóknum um nýtingarkosti jarðhitakerfa og fallvatna.
Merkilegt ...
P.s. Svo er fólk að segja að þessi flotta stífla sé "stærsta slys Íslandssögunnar". (mynd fengin af http://www.karahnjukar.is)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:27 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Föstudagur, 2. mars 2007
Flensan og 3. mars
Ég hef verið að hugsa svolítið að undanförnu. Nú vill svo til að ég er að verða faðir eftir nokkra daga. Er ég búinn að gera mér grein fyrir því að það verður erfitt, krefjandi en mjög gefandi starf. En ef fólk hefur verið að horfa á fréttir undanfarið, gætu sumir munað eftir frétt um líðan barna í hinum ýmsu ríkjum hins vestræna heims. Þar kom í ljós að líðan barna á Íslandi var ekki það góð. Foreldrar eru sjaldan heima, krakkarnir einmana og skólakerfið rétt í meðallagi. Þannig að ég fór að hugsa. Hvernig er hægt að ala barn upp á Íslandi sómasamlega þegar maður þarf að vinna um 50 stundir á viku og eyða restinni af tímanum í biðröðum í Bónus og umferðarteppum. Ég er á þeirri skoðun að það getur ekki verið hollt að börn séu allan daginn í skólanum, sem er uppfullur af vandamálum á meðan foreldrar þurfa að hanga í Bónus.
Svo er annað. Það skiptir engu máli hvað maður kýs í n.k. kosningum. Enginn flokkur hefur sagst ætla að taka á þessum málum. Er ekki kominn tími til að Ríkið og sveitarfélög hætti að eyða peningum í málefnið og fara að verja þeim í greyin!
En núna ligg ég upp í sófa, fullklæddur og undir sæng. Er kominn með fjandans flensuna. Kaldhæðnislegt, því að ég hef ekki orðið veikur í fjölda mörg ár en fæ svo flensuna daginn fyrir áætlaðan fæðingardag krakkans ... 3. mars.
Veriði sæl
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Sunnudagur, 10. desember 2006
Flott skilti
Varúð:
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Mánudagur, 13. nóvember 2006
Skondið dæmi
Núna fyrir skemmstu fór umræða í gang um að breyta einhverjum af þeim umferðarljósum sem sýna hvenær maður á að ganga yfir götu á gatnamótum. Pælingin var að gera einhver af ljósunum að konum sem væru í pilsum og með sítt hár.
Mynd af gönguljósum (fengin af heimasíðunni http://www.us.is/id/1328)
Einhverra hluta vegna finnst mér þessi mynd ekki sýna neitt sérstakt kyn. Hún gefur enga mynd af hárvexti, kynfærum né öðrum útlitseinkennum kynjanna. Ásamt því sýnir núverandi mynd engin föt.
Skondið hvað fólk getur túlkað mikið út frá venjulegri mynd af manni, sem sýnir ekki endilega að um karlmann sé að ræða. Er ekki baráttumál kvenréttinda farin að ganga út í örlitlar öfgar ...
... bara smá pæling
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
Miðvikudagur, 4. október 2006
Flakk
Sælt veri fólkið
Að undanförnu hef ég haft nóg að gera. Skólinn er byrjaður með sín heimadæmi, skýrslur og vettvangsferðir. Nú fyrr í haust kíkti ég á Barðaströnd í rúma viku til að læra kortlagningu. Var það í fyrsta skipti sem ég kom á hina frægu Vestfirði. Ágætis ferð atarna í fínu veðri. Helgina eftir það ævintýr fórum við upp á hálendið og tókum nokkur hverasýni á Hveravöllum og Kerlingafjöllum. Ekki er þetta endirinn á ferðalögunum, onei ... því helgina eftir skrapp ég norður yfir heiðar í hinn víðfræga og yndislega Skagafjörð og settist að í faðmi fjölskyldunnar í nokkra daga. Þar-næstu helgi mun ég svo fara í tveggja daga túr að kortleggja sprungur og misgengi í nágrenni Reykjavíkur.
En síðustu helgi hélt ég mig hins vegar hérna á höfuðborgasvæðinu. Ég lenti næstum því í myrkri síðastliðið fimmtudagskvöld, en helgin var annars að mestu róleg og afslappandi. En það er eitt sem ég hef verið að pæla í undanfarið. Ætli það sé mögulegt að það samlífi sem hefur átt sér stað milli fólks sem býr hér á Höfuðborgarsvæðinu, að það hafi í raun gert það að verkum að allir verða að gera það sama á nákvæmlega sama tíma. T.d. síðasta fimmtudagskvöld ákváðu um 90% Reykvíkinga að fara upp að Perlunni klukkan 10 í þeirri von að sjá myrkur, en helmingurinn komst ekki vegna þess að allir fóru akandi! Hmmm .. einnig fer maður að velta þessu fyrir sér þegar maður þarf óvart að skreppa svona um hálf fimm leitið í hinn enda bæjarins, en sú ferð getur tekið einn, tvo tíma vegna umferðartafa. Ef svo ólíklega vill til að maður álpist svo inn í Bónus, þá lendir maður í því óláni að Pepsí Max hillurnar eru orðnar tómar
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Laugardagur, 29. júlí 2006
Sumarfrí ??
Komið þið sæl og blessuð
Í sumar hefur verið nóg að gera hjá mér og ekki lítur út fyrir annað að svo verði áfram það sem eftir er sumars. Ástæða þess er að það er brjálað að gera í vinnunni upp á Úr-Hellisheiði þar sem ég er að bora niðurdælingarholur fyrir verðandi gufuaflsvirkjun Orkuveitu Reykjavíkur. Vinnan er mjög skemmtileg og fjölbreitt. Ég vinn fyrst og fremst á borpallinum í u.þ.b. 6 metra hæð yfir grundu.
Borinn sem ég hef verið að vinna á, Sleipnir.
Staðsetning þessara niðurdælingarhola er á milli Þrengslavegar og Hellisheiðarvegar, frekar nálægt virkjuninni. Borað er með stefnuborun, svo holan mun koma til með að vísa fyrst til norðurs, og svo til austurs. Þetta er gert til að úrgangurinn sem dælt verður niður frá virkjuninni muni fara að sprungum sem liggja norðaustan til við þetta svæði. Þá vonast jarðfræðingar til að vatnið fari þangað og renni svo að háhitasvæðinu og hitni upp aftur, svo um hringrás verði að ræða.
Borinn er þar sem rauða X-ið er á myndinni.
Sprungur og brot á Hellisheið og Henglinum.
Þetta er eins og þið sjáið mjög spennandi. Mitt verkefni í ferlinu, að þessu sinni, er að vinna á pallinum. Þá vinnur maður á svo kölluðu "jibbíi" sem er krani tengdur við mastrið. Með honum kemur maður 9 metra járnstöngum fyrir í "músarholunni" svo borinn geti tekið við þeim og bætt í strenginn sem fer ofan í holuna. Einnig verður maður að passa að stangirnar séu vel "dópaðar" til að íbætingin gangi vel fyrir sig og stangirnar festist ekki saman. Dópið er einhverskonar feiti með koparögnum í.
Allt í leðju við stangaríbætingu.
Einnig hef ég verið að taka sýni úr hristisigtinu. Hristisigtið sér um að skilja að svarfið, sem kemur við borun og leðjunnar, sem notuð er til að koma svarfinu upp. Svarfið er yfirleitt grófur sandur. Við sýnunum taka svo jarðfræðingarnir og skoða hvað við erum að krukka í þarna niðri.
Hristisigtið (þetta græna).
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Miðvikudagur, 7. júní 2006
Jarðboranir
Þá er mínu öðru ári í jarðfræðináminu endanlega lokið. Ég er búinn að fara í þessar tvær fyrrnefndu námsferðir og ekki er hægt að segja annað en þær hafi bara heppnast mjög vel. Þó var nú veðrið ekki svo sem upp á marga fiska í seinni ferðinni. Við lentum nefnilega í norðan stórrhríð fyrir norðan, og vorum meira að segja veðurteft á Húsavík heilan dag. En þetta reddaðist og náðum við að skoða Tjörneslögin frægu þokkalega.
Fyrri ferðin var mun skárri, en þá skoðuðum við Sólheimajökul og Þórsmörk í sól og blíðu. Er ég búinn að setja nokkrar myndir úr ferðunum á síðuna.
Hér eru nokkrar góðar:
Hópurinn sem ég vann með á Sólheimajökli.
Sólheimajökull
Jón og Leifur að útskýra Breiðuvík á Tjörnesi.
Opna í Tjörneslögunum.
En ég ákvað bara að fá mér djobb hérna sunnan heiða þetta sumarið og náði að koma mér inn hjá Jarðborunum. Verð ég að vinna vaktavinnu í sumar við boranir á Hellisheiði fyrir nýju virkjunina. Borinn sem ég er byrjaður að vinna á heitir Sleipnir og mun ég vera á honum í allt sumar. Mér líst bara vel á þetta, vinnan er skemmtileg og teygir sig örlítið inn á áhugasviðið. Svo skemmir það ekki fyrir að fá nokkurra daga vaktafrí inn á milli. Maður vonar bara að það hætti að rigna hérna fyrir sunnan
... En eru nokkurrar líkur á því ? - Tja, maður spyr sigBloggar | Breytt 28.7.2006 kl. 20:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)